3.9.2008 | 08:08
Fréttir frá unglingalandsmóti
Ferðamálafélag Ölfuss tók þátt í Landsmóti unglinga sem haldið var í Þorlákshöfn 1. - 4. í ágúst með því að sjá um gönguferðir um bæinn og nágrenni. Edda Laufey Pálsdóttir sá um gönguna laugardaginn 2. ágúst, þar sem gengið var frá Skrúðgarðinum og sem leið liggur að kirkjunni. Síðan áfram um hverfisverndarsvæðið,
Egilsbraut og að Ráðhúsinu. Gangan tók um 1 1/2 tíma. Um 30- 40 manns tók þátt í göngunni í besta veðri.
Fyrir Landsmótið voru sett upp upplýsingaskilti með fróðleik og myndum á 12 stöðum í bænum sem myndar góðan gönguhring. Skiltin eru númeruð og er gott að hefja gönguna í skrúðgarðinum og halda svo áfram sem leið liggur að kirkju og síðan um hverfisverndarsvæðið. Gengið var um hluta af þessum hring og síðan fór Ólafur Áki Ragnarsson og Einar Sigurðsson með hóp fólks á sunnudeginum 3. ágúst um svæði gamla Þorlákshafnarbæjarins og bryggjur.
Ljósmyndasýning var sett upp í vitanum landsmótsdagana. Sýndar voru nokkrar myndir af strandi Ófeigs III frá 1988. Einnig myndir af blómum í nágrenni vitans sem teknar voru í maí og júní 2008 af Eddu Laufeyju Pálsdóttur. Félagar úr FFÖ sáu um gæslu í vitanum alla dagana á meðan á sýningu stóð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.