1.9.2011 | 15:44
Ferðin í Berufjörð - Papey
Berufjörður Papey
Á hverju ári frá því að Ferðamálafélag Ölfuss var stofnað hefur það verið markmið félagsmanna að fara í eina ferð þriggja til fjögurra daga. Ferðin í ár var farin austur á land í Berufjörð og út í Papey dagana 11.-14. ágúst sl. Átta manns fóru í ferðina sem heppnaðist í alla staði vel. Þrátt fyrir að veðurspá hafi ekki alveg verið ferðalöngum í hag rættist þokkalega úr veðrinu.
Ekið var frá Þorlákshöfn upp úr kl. 09:00 fimmtudaginn 11. ágúst og komið á Djúpavog um kl. 16:00. Eftir síðbúinn hádegisverð var gengið um hluta þorpsins undir leiðsögn Ólafs Áka Ragnarssonar. Komið var við á steinasafni Auðuns Baldurssonar, þaðan haldið inn í Gleðivík og eggin skoðuð, listaverk eftir Sigurð Guðmundsson. Gengið var inn í Skógræktina á Búlandsnesi, með viðkomu á áhugaverðum stöðum. Skoðunarferðin tók um 4 klst.
Eggin í Gleðivík, verk eftir Sigurð Guðmundsson, listamann
Steinasafn Auðuns Baldurssonar
Föstudaginn 12. ágúst var gengið á Búlandstind. Búlandstindur er 1069 metra hátt basaltfjall í Djúpavogshreppi og er talinn vera um 8 milljón ára gamall. Búlandstindur þykir almennt vera í hópi formfegurstu fjalla á Íslandi og sumir trúa því að Búlandstindur sé orkustöð.
Á toppi Búlandstinds 1069 metrar á hæð. Á myndinni eru: fv. Vigfús Gíslason, Ólafur Áki Ragnarsson, Kristján Gíslason, Vigdís Brynjólfsdóttir, Svandís Sverrisdóttir, og Rán Gísladóttir
Vigfús Gíslason á toppi Búlandstinds 1069 metrar á hæð
Kl. 15:00 var síðan haldið með ferjunni Gísla í Papey út í Papey sem tekur um 40 mín að sigla. Papey er stór eyja og tilheyrir Djúpavogshreppi. Eyjan er 2,0 ferkílómetrar að stærð, og er hæsti punktur hennar í um 58 metrar yfir sjávarmáli.
Í Papey var dvalið í um sólarhring og notið leiðsagnar Svandísar I. Sverrisdóttur sem ólst upp í eyjunni og þekkir þar hverja þúfu.
Bjarg íbúðarhúsið í Papey
Inn í kirkjunni í Papey. Á myndinni eru: fv. Vigdís Brynjólfsdóttir, Alda Einarsdóttir, Rán Gísladóttir, Svandís Sverrisdóttir og Vigfús Gíslason
Laugardaginn 13. ágúst var haldið til lands með bátnum Orra SU-260 sem Eðvald Ragnarsson eigandi bátsins stýrði. Eftir sjóferðina sem tók aðeins á farþega sökum lítisháttar brælu, var haldið í Löngubúð. Söfnin í Löngubúð voru skoðuð og fengið sér kaffi og meðlæti á eftir. Eftir skoðunarferð um þorpið var sameiginlegt grill um kvöldið.
Á landleið með Orra SU-260, Rán Gísladóttir og María Sigurðardóttir
Sunnudaginn 14. ágúst var haldið heim á leið með viðkomu í Skaftártungu. Eftir að hafa borðað dýrindis SS pylsur var haldið heim og komið til Þorláksharnar síðdegis. Fararstjórar voru Svandís Ingibjörg Sverrisdóttir og Ólafur Áki Ragnarsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.